Smyglarar hafa miklar tekjur af að flytja fólk frá Venesúela til Kólumbíu og annarra ríkja. Mörgum reynist erfitt að greiða fyrir flutningin enda peningar af skornum skammti. Þekkt er að smyglarar klippi hár af konum, sem þeir flytja yfir landamærin, og selji það til að hafa eitthvað upp úr krafsinu. Flestir þora ekki að fara yfir landamæri við hefðbundnar landamærastöðvar af ótta við að hermenn og landamæraverðir taki skilríki þeirra eða eyðileggi þau. Þess í stað tekst fólk á hendur hættulega ferð í óbyggðum þar sem ýmsar hættur leynast. Margir þurfa að fara mörg hundruð kílómetra leið sem liggur jafnvel að hluta yfir allt að rúmlega 5.000 metra háa fjallgarða og hitastigið getur sveiflast frá 30 gráða hita niður fyrir frostmark. Allt er þetta gert til að komast til stórborganna Bogotá og Medellin eða jafnvel áfram og til Ekvador. Talið er að 50 manns leggi af stað í ferð sem þessa á degi hverjum.
Í kjölfar þess að olíuverð snarlækkaði fyrir fjórum árum hrundi efnahagur Venesúela og ekki bæta stjórnarhættir í landinu úr skák en sósíalistastjórn landsins hefur tekist vægast sagt illa upp við að glíma við ástandið. Auk þess er spilling mikil og á meðan stór hluti þjóðarinnar á vart til hnífs og skeiðar maka sumir úr hinni pólitísku elítu krókinn og safna miklum auði. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 2,3 milljónir Venesúelamanna hafi flúið land á undanförnum fjórum árum. Það eru rúmlega sjö prósent af íbúum landsins.
Staðan er mjög alvarleg í landinu, mikill skortur er á helstu nauðsynjum á borð við mat og lyf og verðbólgan er stjórnlaus en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hún sé nú 1,4 milljónir prósenta. Þetta veldur því að efri millistéttin er orðin fátæk. Sem dæmi um verðbólguna má nefna að í ágúst kostaði kaffibolli í höfuðborginni Caracas tvær milljónir bólivara en árið áður kostaði hann 2.000 bólivara. Víða situr fólk og saumar töskur úr peningaseðlunum sínum og reynir að selja þær. Seðlarnir eru mjög slitsterkir og því kjörnir til töskugerðar.
Forseti landsins, Nicolás Maduro, reyndi í örvæntingu að bregðast við óðaverðbólgunni í sumar með því að taka fimm núll aftan af gjaldmiðlinum og hleypti nýrri rafmynt af stokkunum en hún er tengd olíuverðinu. Ekkert gefur til kynna að sú aðgerð hafi gert gagn.
Á síðasta ári skráðu innflytjendayfirvöld í Kólumbíu rúmlega 853.000 Venesúelamenn sem komu til landsins á leið sinni til annarra ríkja í Suður-Ameríku. Við þennan fjölda bætist sú milljón Venesúelamanna sem býr nú í Kólumbíu. Flestir fara yfir landamærin með því að nota Simón Bolívar-brúna í Cúcuta. Á degi hverjum fara 30.000 manns yfir landamærin til Kólumbíu til að vinna, versla eða borða. Um 10 prósent þeirra koma í þeim eina tilgangi að fá mat í móttöku kirkjunnar nærri brúnni. Daglega fara um 3.000 Venesúelamenn yfir brúna og horfa ekki til baka og koma ekki aftur.
Fram að þessu hafa stjórnvöld í Kólumbíu staðið fast á því að taka vel á móti flóttamönnunum en nýkjörinn forseti landsins, Ivan Duque, kynnti þá stefnu formlega í nóvember. Hann hvatti alla til að taka vel á móti flóttamönnunum. Þrátt fyrir pólitíska og efnahagslega erfiðleika í Venesúela líta Kólumbíumenn á þessa nágranna sem systur og bræður sína. Bæði ríkin voru frelsuð undan oki Spánverja af Simón Bolívar og um skamma hríð voru þau eitt, sjálfstætt ríki. Í gegnum tíðina hafa landamærasvæði ríkjanna runnið mikið saman efnahags- og félagslega.
Þótt Kólumbíumenn vildu loka landamærunum og stöðva flóttamannastrauminn er það með öllu útilokað. Landamæri ríkjanna eru rúmlega 2.200 kílómetra löng og ekki hægt að hafa stjórn á þeim. Á sumum svæðum ráða smyglarar og uppreisnarhópar lögum og lofum.
Í Brasilíu var gripið til þess ráðs í ágúst að loka landamærunum tímabundið og skömmu síðar byrjuðu stjórnvöld í Ekvador og Perú að neita Venesúelamönnum um aðgang nema þeir væru með vegabréf en fæstir geta uppfyllt þá kröfu þar sem það hefur alltaf nægt að vera aðeins með nafnskírteini. Efnt hefur verið til mótmæla í Ekvador gegn flóttamönnum og í Brasilíu réðst reiður múgur á tjaldbúðir flóttamanna og rak um 1.000 Venesúelamenn á flótta.
Í landamærabænum Cúcuta finnur fólk mikið fyrir flóttamannastraumnum og stærsta sjúkrahús bæjarins tekur aðeins á móti Venesúelamönnum sem koma til Kólumbíu til að eignast börn eða fá meðhöndlun við einföldum sjúkdómum. Skólar eiga fullt í fangi með að taka við nemendum frá Venesúela sem hafa leitað þangað þar sem menntakerfið í Venesúela er hrunið. Vaxandi óánægju er farið að gæta hjá heimamönnum með þetta. Áður fyrr nutu íbúar Cúcuta góðs af nálægðinni við Venesúela. Þeir gátu keypt hræódýrt bensín í Venesúela og sótt sér háskólamenntun fyrir aðeins fimmtung þess sem það kostar að verða sér úti um slíka menntun í Kólumbíu.
Kólumbíska utanríkisráðuneytið vinnur nú út frá þrenns konar hugsanlegri framtíðarsýn; raunverulegri, bjartsýnni og svartsýnni. Ef ástandið breytist ekki í Venesúela reiknar ráðuneytið með að árið 2021 verði 2,17 milljónir Venesúelamanna í Kólumbíu en ef ástandið í Venesúela batnar aðeins gæti þessi talað lækkað um nokkur hundruð þúsund. Ef ástandið versnar enn frekar telur ráðuneytið að fólksstraumurinn gæti aukist mikið og að á þremur árum færu fjórar milljónir Venesúelamanna til Kólumbíu.
Carlos Holmes Trujillo, utanríkisráðherra landsins, segir að nú standi Kólumbía frammi fyrir áskorunum af áður óþekktri stærðargráðu, einhverju sem landið hafi aldrei áður upplifað. Ríkisstjórnin hefur verið hikandi við að gefa upp áætlaðan kostnað vegna flóttamannanna en samkvæmt spá ráðuneytisins gæti hann orðið mikill eða um tíu prósent af heildarútgjöldum ríkisins. Ekvador, Perú, Argentína og önnur ríki í Suður-Ameríku geta einnig búist við mikilli holskeflu af Venesúelamönnum ef ástandið batnar ekki.