Konan, Emily Spanton, sem hefur kosið að koma fram undir nafni sagði á fyrsta degi réttarhaldanna að hún hafi hitt hóp lögreglumanna á írskum bar nærri Signu í apríl 2014. Hún sagði að lögreglumennirnir hafi boðið henni í skoðunarferð um höfuðstöðvar lögreglunnar. Þar segist hún hafa verið neydd til að drekka viskí og veita lögreglumönnunum munngælur, auk þess sem henni hafi verið nauðgað margoft.
Hún yfirgaf lögreglustöðina um 90 mínútum síðar, berfætt og sokkabuxnalaus. Sky segir að samkvæmt dómsskjölum hafi lífssýni úr mönnunum fundist í nærfatnaði Spanton. Dómsformaðurinn sagði í gær að læknisrannsókn sem var gerð á Spanton hafi sýnt að hún var með marbletti víða um líkamann og áverka á kynfærum. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að Spanton var drukkin þegar hið meinta ofbeldi átti sér stað.
Í fyrstu sagði Spanton að fjórir lögreglumenn hefðu nauðgað henni en breytti síðan framburði sínum og sagði þá hafa verið þrjá en aðeins tveir voru ákærðir.
Saksóknarar í París felldu málið niður í upphafi en Spanton kærði þá ákvörðun og hafði sigur og urðu saksóknarar því að gefa út ákæru í málinu.
Lögreglumennirnir eiga allt að 20 ára fangelsi yfir höfði sér ef þeir verða fundnir sekir.