Eins og fram kom í umfjöllund DV í nóvember var íslensk stúlka, Emilía Gunnarsdóttir, stödd í samkvæminu þar sem ungmennin tvö neyttu fíkniefna. Emilía vildi hringja eftir aðstoð þar sem ástand piltsins, sem hét Marcus Elias Andersen, var slæmt en hann lá á baðherbergisgólfinu og var með litla sem enga meðvitund. Emilíu var bannað að hringja í neyðarlínuna þar sem húsráðandinn vildi alls ekki fá lögreglu- og sjúkraflutningsmenn inn í íbúðina.
Til að koma í veg fyrir að lögreglan hefði afskipti af þeim sem voru í íbúðinni var Marcus borinn út á götu skömmu eftir miðnætti og síðan hringt á hjálp. Átti þetta að líta út eins og hann hefði ekki verið í íbúðinni. Þetta var gert þar sem húsráðandinn, móðir stúlkunnar, vildi alls ekki fá lögregluna inn í íbúð sína.
Eins og fyrr segir lést stúlkan aðfaranótt miðvikudags en hún varð fyrir alvarlegum heilaskaða af völdum fíkniefna, áfengis og lyfseðilsskyldra lyfja sem hún tók þetta kvöld. Hún hafði dvalið á sérhæfðri stofnun fyrir mjög heilaskaddað fólk.