Ryanair birti tilkynningu um lokun Ryanair Holidays á heimasíðu sinni á mánudaginn en hefur ekki gefið neinar skýringar á lokuninni. Allar ferðir sem seldar höfðu verið verða þó farnar.
Ryanair er einna þekktast fyrir að selja ódýrar flugferðir víða um Evrópu en fyrirtækið hefur reynt að færa út kvíarnar á undanförnum árum til að reyna að fá peninga fyrir fleira en sölu flugmiða. Eins og hjá öðrum lággjaldaflugfélögum er hægt að bóka hótel og leigja bíla en með stofnun Ryanair Holidays í desember 2016 steig fyrirtækið einu skrefi lengra en önnur lággjaldaflugfélög.
Ferðaskrifstofan var starfrækt í fimm Evrópulöndum en hefur greinilega ekki verið að gera stóra hluti hvað varðar innkomu og hagnað.