Verner Strunck, 65 ára, fannst látinn í rúmi sínu á hótelinu 31. desember og tveimur dögum síðar fannst vinur hans, Leif Kristensen, látinn í sínu rúmi á hótelinu. JydskeVestkysten skýrir frá þessu. Segir í umfjöllun blaðsins að vinum og ættingjum sé mjög brugðið vegna málsins þar sem mennirnir hafi báðir verið við góða heilsu og þar sem kringumstæður andlátanna séu mjög sérkennilegar.
Alex Strunck, sonur Verner, sagði í samtali við blaðið að málið sé allt mjög dularfullt. Hann segist telja að eitrað hafi verið fyrir vinunum og að ekki hafi dregið úr þeim grunsemdum hans þegar hann hafði kannað hótelið, sem vinirnir dvöldu á, betur. Það heitir Elysees Dream Beach Hotel en hét áður öðru nafni. Gestir hótelsins hafa gefið því hræðilegar umsagnir í gegnum tíðina að sögn Alex og vatnið þar og maturinn hafi verið sérstaklega nefndir til sögunnar.