Samkvæmt því sem lögreglan skýrði frá í morgun var Anne rænt einhverntíma frá 09.15 til 13.30 en þá kom eiginmaður hennar, milljarðamæringurinn Tom Hagen, heim. Hann fór til vinnu um klukkan níu og kom heim um klukkan 13.30 sagði Tommy Brøske, sem stýrir rannsókninni, í morgun. Um hálfri klukkustund eftir heimkomuna tilkynnti Tom Hagen lögreglunni um málið. Brøske sagði að vettvangsrannsókn lögreglunnar á heimili Hagen-hjónanna væri nú lokið.
Mannræningjarnir skildu eftir skrifleg skilaboð í húsinu þar sem lausnargjalds er krafist og hótað að drepa hana ef lögreglunni væri blandað í málið. Skilaboðin voru á bjagaðri norsku og hafa málfræðingar aðstoðað lögregluna við rannsóknina í þeirri von að málfarið komi upp um mannræningjana.
Í morgun höfðu lögreglunni borist rúmlega 800 vísbendingar í málinu og snúast þær um nafngreinda aðila, ökutæki, hugsanlega staði þar sem Anne er haldið fanginni og annað sem hefur vakið athygli fólks að sögn Brøske. Sumar ábendinganna varða beint þá tvo aðila sem sjást á upptökum úr eftirlitsmyndavélum við vinnustað Tom Hagen þennan örlagaríka dag í október.