Sky-fréttastofan skýrir frá þessu en hún hefur fengið afrit af ræðu May. Stoke er sterkt vígi stuðningsmanna Brexit en í þjóðaratkvæðagreiðslunni greiddu 69,4% kjósenda þar atkvæði með úrsögn úr ESB.
Á morgun munu þingmenn í neðri deild breska þingsins greiða atkvæði um útgöngusamning May við ESB en allt stefnir í að hann verði kolfelldur. Í ræðu sinni í dag mun May segja að sumir þingmenn muni „gera allt sem í þeirra valdi stendur“ til að „fresta eða jafnvel stöðva Brexit“. Breskir fjölmiðlar skýrðu í gær frá leynilegri áætlun þingmanna um að hrifsa löggjafarvaldið af May ef samningurinn verður felldur. Ef þessi leynilega áætlun gengur upp mun ríkisstjórnin missa stjórn á þinginu og þar með verður erfitt fyrir hana að stýra landinu og þar af leiðandi verður hætta á að ekki verði af Brexit.
May segist nú telja að „á grunni staðreynda síðustu viku“ sé líklegra að þingmönnum takist að koma í veg fyrir Brexit en að Bretland yfirgefi ESB án útgöngusamnings. Hún hefur margoft sagt þingmönnum að „enginn samningur sé betri en slæmur samningur.“