Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamska ríkið hugðust myrða Kate Middleton, eiginkonu Vilhjálms Bretaprins og ríkisarfa, með því að eitra fyrir henni. Samkvæmt skilaboðum sem liðsmennirnir sendu sín á milli með dulkóðuðu appi ræddu þeir þessa áætlun. Í henni fólst að þeir ætluðu að eitra mat í stórmörkuðunum þar sem Kate verslar. Með skilaboðunum var mynd af henni með innkaupakerru í verslun og textinn: „Við vitum hvað hún borðar – eitrum matinn.“
Í öðrum skilaboðum var hvatt til árásar á son hennar, George prins, og mynd birt af honum þar sem hann leiðir föður sinn. Breskir fjölmiðlar fjölluðu um þetta í gær og dag og segja að málið sé tekið mjög alvarlega.
Í júlí var Husnain Rashid dæmdur í lífstíðarfangelsi, með möguleika á reynslulausn eftir 25 ár, fyrir að hafa notað samfélagsmiðla til að hvetja til morðs á George prinsi.