Samkvæmt upplýsingum frá austurrísku veðurþjónustunni ZAMG mældist úrkoman í Hochfilzen í Týról 311 sm frá nýársdegi þar til síðasta fimmtudag. Víða annarsstaðar hafa rúmlega tveir metrar af snjó fallið það sem af er ári.
Veðurspár gera ráð fyrir að allt að einn metri til viðbótar af snjó geti fallið í Ölpunum í dag og á morgun. Ef það gengur eftir verður úrkoman það sem af er ári allt að þrír-fjórir metrar víða. Samhliða þessari miklu snjókomu eykst snjóflóðahættan einnig.
14 af þeim 25 sem hafa látist létust af völdum snjóflóða, þar af 8 skíðamenn í austurrísku fjöllunum. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir þau banaslys sem vitað er um og fjölmiðlar hafa skýrt frá það sem af er ári.
Þann 5. janúar lést tvítug þýsk kona í snjóflóði við Teisenberg í Bæjaralandi í Þýskalandi.
Þann 6. janúar létust tveir þýskir skíðagöngumenn í tveimur aðskildum snjóflóðum í Vorarlberg í Austurríki. Einnig lést þýsk kona eftir að henni hlekktist á á snjóbretti sínu og lenti á kafi, með höfuðið á undan, í snjó. Slóvenskur skíðamaður lést í Pongau nærri Salzburg.
Þann 7. janúar fundust tveir fjallgöngumenn látnir á Christalliera fjallinu í ítölsku Ölpunum. 44 ára karlmaður lést í Wackersberg í Þýskalandi þegar hann varð fyrir trjágreinum sem létu undan þungum snjó og brotnuðu.
Þann 8. janúar fundust 28 ára karlmaður 23 ára kona látin nærri Salzburg í Austurríki en þau höfðu verið á göngu á snjóþrúgum. Tveggja annarra er saknað.
Þann 9. janúar lést 13 ára piltur í snjóflóði í St Anton am Arlberg í Austurríki þar sem hann var á ferð með fjölskyldu sinni. Í Slóvakíu lést 37 ára karlmaður í snjóflóði í Mala Fatra fjöllunum.
Fjórir skíðamenn létust af völdum snjóflóðs í Tamokdalnum í norðurhluta Noregs. Fórnarlömbin voru 29 ára sænsk kona og þrír finnskir karlmenn, 29, 32 og 36 ára.
Þann 10. janúar lést 9 ára drengur í Aying nærri München í Þýskalandi þegar hann varð fyrir tré sem lét undan snjóþunga.
Þann 11. janúar létust tveir snjóbrettamenn í snjóflóði nærri Bansko, sem er stærsti skíðastaður Búlgaríu. 48 ára karlmaður lést í sunnanverðu Þýskalandi þegar ísilögð á gaf sig undan snjómoksturstæki hans.
Þann 12. janúar létust þrír þýskir skíðamenn í snjóflóði nærri Lech am Arlberg í Austurríki. Eins til viðbótar er saknað.
Þann 13. janúar létust tveir starfsmenn yfirvalda í frönsku Ölpunum. Þeir létust í sprengingu þegar þeir voru að undirbúa sig undir að sprengja snjóhengjur.