Það var eiginlega tilviljun að maðurinn náðist því lögreglan var að eltast við grunaðan innbrotsþjóf og handtók hann í óbyggðum nærri Los Angeles í október. Fljótlega fór lögregluna að gruna að hinn handtekni væri maður sem hafði skotið á fjölda manns og myrt einn í þjóðgarðinum á undanförnum tveimur árum.
Skotárásirnar hófust í nóvember 2016 þegar maður var skotinn og særður þar sem hann svaf í hengirúmi. Viku síðar var skotið inn í svefnrými bíls. Í júní á þessu ári var Tristan Beaudette, 35 ára, skotinn til bana í þjóðgarðinum en hann var sofandi í tjaldi ásamt tveimur dætrum sínum, tveggja og fjögurra ára.
Í tilkynningu frá saksóknara í Los Angeles var það Anthony Rauda, 42 ára, sem var handtekinn í óbyggðunum. Hann hefur nú verið ákærður fyrir morðið á Beaudette og tíu morðtilraunir auk fjölda innbrota.
Rauda á lífstíðarfangelsi yfir höfði sér ef hann verður fundinn sekur um ákæruatriðin.