fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Pressan

Ráðgátan í Thuleherstöðinni – Hvað varð um Jytte?

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 10. janúar 2019 22:30

Jytte Refsgaard.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 22. júlí 1977 uppgötvuðu starfsmenn í Thuleherstöðinni á Grænlandi að Jytte Refsgaard var horfin. Hún mætti ekki í morgunmat og ekki til vinnu. Fólk mætti í morgunmat klukkan 6.45 og borðaði saman áður en haldið var til vinnu en þennan morgun vantaði Jytte. Klukkustundir liðu og ekkert sást til hennar. Vinnufélagi hennar fór niður að svefnskálum starfsfólks og knúði dyra hjá Jytte en það var ekki opnað. Hann fann lykil og opnaði dyrnar og fór inn. Ekki var annað að sjá en allt væri í stakasta lagi, næstum því. Á borðinu lá krullujárn og var það sjóðheitt en Jytte var horfin.

Málið er allt hið dularfyllsta og hefur ekki enn verið upplýst og Jytte hefur aldrei fundist en margar spurningar hafa vaknað við rannsókn málsins og suma grunar að hún hafi verið myrt og hafa sínar grunsemdir um hver hafi þá orðið henni að bana.

Meðal þess sem fólk hefur velt fyrir sér er af hverju Jytte ætti að hafa kveikt á krullujárninu ef hún hafði ekki í hyggju að koma aftur og nota það? Síðan er það stór ráðgáta hvernig hún gat horfið frá herstöð þar sem allar ferðir voru skráðar.

Jytte flaug til Grænlands og hóf störf í Thuleherstöðinni í mars 1977. Hún starfaði á skrifstofu birgðadeildarinnar. Á þessum árum bjuggu mörg þúsund manns, bæði Danir og Bandaríkjamenn, í herstöðinni en þar var fylgst með lofthelginni yfir Bandaríkjunum. Herstöðin var lokað samfélag og samskipti ekki mikil við innfædda. Fáar konur störfuðu í herstöðinni og var Jytte meðal þeirra fyrstu sem þar hófu störf. Þær fáu konur sem þar störfuðu fengu mikla athygli karlpeningsins og voru kallaðar „Thule-drottningarnar“. Mörgum þeirra þótti nóg um athyglina og reyndu að klæða sig þannig kvenlegur líkamsvöxturinn væri hulinn.

Hvar var Jytte?

Dagarnir í herstöðinni voru í föstum skorðum. Fólk fór með rútu til vinnustöðva sinna, sinnti vinnu sinni og fór aftur í svefnskálana með rútu. En eins og fyrr segir mætti Jytte ekki til vinnu þann 22. júlí og krullujárnið hennar var heitt í herberginu hennar. Það sagði samstarfsfólki að eitthvað hlyti að hafa komið fyrir hana. Bandarískum yfirmanni herstöðvarinnar var tilkynnt um málið og klukkan 10.05 tilkynnti hann yfirmanni bandarísku herlögreglunnar um málið. Tíu mínútum síðar fékk yfirmaður dönsku lögreglunnar í stöðinni tilkynninguna og hóf strax rannsókn. Niðurstaða lögreglunnar var sú sama og vinnufélaga Jytte, ekkert í svefnskála hennar benti til að til átaka hefði komið eða að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað, allt var eins og það átti að vera nema auðvitað heita krullujárnið.

Í skúffu voru peningar og flogaveikislyf ósnert. Lögreglan taldi að Jytte hefði tekið þetta með sér ef hún hefði ætlað að yfirgefa herstöðina og ekki snúa aftur. Síðast hafði sést til hennar klukkan 19.30 kvöldið áður en þá sá nágranni hennar hana fara úr svefnskálanum og var hún þá íklædd bláum íþróttagalla og hlaupaskóm. Skömmu síðar sá annar vinnufélagi til Jytte þar sem hún var á hlaupum við tvo ystu svefnskálana í herstöðinni. En af hverju sneri hún ekki aftur úr hlaupatúrnum?

Úrklippa af frétt Berlingske um málið.

Lögreglan var með ýmsar kenningar um hvarf hennar og hvað gæti hafa komið fyrir hana. Hafði hún farið of langt frá herstöðinni og orðið fyrir árás ísbjarnar sem hafði síðan étið hana? Hafði hún stungið af með bandarískum herforingja? Hafði hún fengið flogakast og slasast? Hafði hún dottið í ískalda á bak við herstöðina?

Spurningarnar voru margar en svörin sárafá.

Mikil leit var gerð í herstöðinni og nánasta umhverfi. Allir skápar voru opnaðir, svefnskálum snúið við og holrými undir svefnskálunum voru rannsökuð. Þyrla var notuð við leitina en allt kom fyrir ekkert. Ein af öðrum voru kenningar lögreglunnar skotnar niður, ekkert fannst sem studdi þær.

Mynd úr herbergi Jytte.

Morðdeild ríkislögreglunnar send á vettvang

Þrír dagar liðu án þess að tangur né tetur fyndist af Jytte og málið varð sífellt dularfyllra. Lögreglunni þótti sífellt líklegra að hún hefði ekki horfið af fúsum og frjálsum vilja. Eitthvað glæpsamlegt hafði átt sér stað. Á fjórða degi var beðið um aðstoð morðdeildar dönsku ríkislögreglunnar og voru tveir sérhæfðir rannsóknarlögreglumenn sendir til Thule frá Danmörku.

Jytte við á utan við herstöðina. Orla tók myndina.

Þeir yfirheyrðu samstarfsfólk Jytte. Meðal þeirra var Orla Munk Anthonisen. Hann hafði fylgt Jytte heim úr samkvæmi þann 4. júlí og farið inn í svefnskála hennar og fengið sér drykk með henni áður en hann fór í sinn eigin svefnskála. Vitni sáu hann yfirgefa svefnskálann þá um nóttina. Orla fylgdi Jytte úr matsalnum að svefnskála sínum þann 21. júlí. Þar skildu leiðir þeirra. Orla var því meðal þeirra síðustu sem sáu Jytte. Grunur lögreglunnar beindist að Orla og var hann spurður ítarlega út í hvað hefði gerst þann 4. júlí þegar hann fór með Jytte í svefnskála hennar. Hann hélt og hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu í málinu og segir að ekkert hafi gerst þeirra á milli, þau hafi fengið sér drykk saman og síðan hafi hann farið í sinn eigin svefnskála.

„Ég verð þér trú“

Jytte náði aðeins að vera í herstöðinni í fimm mánuði áður en hún hvarf. Ekkert benti til annars en að hún væri sátt við lífið og tilveruna. Það sagði hún vinum, samstarfsfólki og unnusta sínum, Frits, sem var í Danmörku. í bréfum til hans skrifaði hún að henni liði vel og að hún myndi vera honum trú. Ekkert benti til að hún hefði neina ástæðu til að flýja það líf sem hún lifði. Hún virtist ánægð og af hverju hefði hún þá átt að flýja?

Jytte sást síðast þar sem krossinn er teiknaður á myndina.

Lögregluna grunaði að kynferðisglæpur lægi að baki hvarfi Jytte en starfsmenn herstöðvarinnar voru sannfærðir um að svo væri, það var eina raunhæfa skýringin að þeirra mati. Karlar spáðu í hvort henni væri haldið fanginni einhversstaðar en konurnar óttuðust að verða næstar í röðinni.

Af hverju fór yfirmaður Jytte?

Í skýrslu dönsku lögreglumannanna kemur fram að „sérstakt samfélag“ hafi verið í herstöðinni. Íbúarnir hafi ekki virst hafa mikinn áhuga á málinu eða áhyggjur og fáir hafi nennt að aðstoða við rannsóknina. Þeir yfirgáfu Grænland þann 5. september 1977 og fólu dönsku lögreglumönnunum, sem störfuðu í stöðinni, að halda rannsókninni áfram.

En málið hefur aldrei verið leyst, ekkert er vitað um örlög Jytte. Var hún myrt? Lést hún af slysförum? Lét hún sig hverfa sjálfviljug?

En eitt er það sem samstarfsfólk hennar undraðist sérstaklega. Það er að sex dögum eftir hvarf hennar yfirgaf einn bandarísku yfirmanna herstöðvarinnar hana í skyndi. Hann var farinn áður en lögreglan náði að yfirheyra hann. Hvað varð um hann? Er því spurningin sem fólk velti fyrir sér og fékk aldrei neitt svar við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 5 dögum

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans