Það kom öllum á óvart þegar konan ól dreng en enginn hafði veitt því eftirtekt að hún væri barnshafandi. New York Times segir að nýjar upplýsingar hafi nú komið fram sem varpi nýju ljósi á málið. Blaðið segir að vandamál hafi verið á hjúkrunarheimilinu áður. 2013 var karlkyns starfsmaður þess rekinn eftir að hann hafði látið kynferðislega athugasemdir falla um íbúana, til dæmis að andlega fatlaður íbúi hafi verið settur í kynferðislegar stellingar. Þetta var ekki tilkynnt stjórnendum hjúkrunarheimilisins fyrr en mánuði síðar. Við eftirlit á hjúkrunarheimilinu 2017 kom í ljós að hugsanlega væri brotið gegn blyðgunarsemi íbúanna þegar þeir væru baðaðir.
Það er rými fyrir 74 á hjúkrunarheimilinu. Stjórnandi þess sagði upp störfum í vikunni vegna málsins. Stjórn Hacienda HealthCare féllst strax á uppsögnina og sagði Gary Orman, aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, að fyrirtækið sætti sig ekki við neitt annað en að kafað verið ofan í kjölinn á þessu hræðilega máli sem hafi haft mikil áhrif á alla, fórnarlambið, fjölskyldu hennar og starfsfólk Hacienda.
Lögreglan í Phoenix hefur hafið rannsókn á kynferðisbrotinu. Washington Post segir að lögreglan sé nú að afla DNA-sýna úr karlkyns starfsmönnum hjúkrunarheimilisins til að reyna að finna föður drengsins. Allt að 14 ára fangelsi liggur við nauðgun í Arizona ef um fyrsta kynferðisbrot viðkomandi er að ræða. Kynferðisbrotamenn eru einnig settir á sérstakan lista yfir kynferðisbrotamenn.
Málið hefur vakið upp umræður um hvort eftirlit með einkareknum hjúkrunarheimilum á borð við Hacienda HealthCare sé nægilega gott.