Ræninginn sagðist vera með skammbyssu og krafði Viana um farsíma hennar. En þessi 26 ára atvinnubardagakona var ekki á þeim buxunum að láta hann fá símann og greip til sinna ráða. Ræninginn hefur síðan verið hafður að háði og spotti í Brasilíu og víðar fyrir val sitt á fórnarlambi og þeirra maklegu málagjalda sem hann hlaut.
Viana sagði í samtali við mmajunkie.com að maðurinn hafi setið mjög nærri henni þegar hann sagði skyndilega:
„Láttu mig fá símann þinn og ekki reyna neitt því ég er vopnaður.“
Síðan lagði hann höndina yfir það sem átti að vera skammbyssa en það virtist vera of „mjúkt“ að hennar sögn.
„Ég hugsaði með mér að þar sem hann væri svo nálægt mér þá myndi hann ekki ná að hleypa skoti af ef þetta væri raunverulega skammbyssa svo ég hentist upp og kom tveimur höggum og einu sparki á hann. Síðan tók ég hann föstum tökum og sat síðan og beið eftir lögreglunni.“