Þrír hinna dauðadæmdu hafa nú þegar verið teknir af lífi. Í desember var Hamidreza Dermani hengdur en hann hafði verið fundinn sekur um spillingu og fjársvik upp á 100 milljónir dollara. Um miðjan nóvember var Vahid Mazloumin, þekktur sem konungur gullmyntanna, hengdur ásamt samstarfsmanni sínum Mohamed Salem. Þeir voru sakfelldir fyrir smygl og fyrir að hafa hamstrað tvö tonn af gullmynnt á 10 mánuðum með það að markmiði að hafa áhrif á markaðsvirði þeirra og veðja á verðhækkanir. Mannréttindasamtök segja að réttarhöldin yfir þeim hafi verið sýndarréttarhöld.
Eftir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, setti refsiaðgerðir á Íran í ágúst hefur aðgengi að dollurum og gulli verið takmarkaður sem hefur í för með sér að svartamarkaðsverðið hefur snarhækkað. Gjaldmiðill landsins hefur tapað nærri 70 prósentum af verðmæti sínu. Almenningur fer ekki varhluta af þessu og hefur mótmælt verðhækkunum, vaxandi atvinnuleysi og spillingu. Spillingardómstóllinn var svar klerkastjórnarinnar við þessum mótmælum.
Ríkisstjórnin segir nauðsynlegt að gera út af við svartamarkaðsbrask og dómstólum hefur verið fyrirskipað að vinna hratt og beita hörðum refsingum. En spilling er svo landlæg og hefur skotið rótum svo djúpt að nýi dómstóllinn getur lítið meira en krafsað í yfirborðið að mati sérfræðinga. Þeir sem hagnast á spillingunni hafa svo góð pólitísk sambönd að þeir eru nánast ósnertanlegir. Það er því auðveldara fyrir ríkisstjórnina að láta dæma nokkra spillta, að sögn, kaupsýslumenn en að gera umfangsmiklar endurbætur á bankakerfinu.