Herinn í Afríkuríkinu Gabon hefur tekið völdin í landinu. Þetta var tilkynnt í útvarpi þar í landi snemma í morgun. BBC segir að skriðdrekar og önnur hernaðartæki séu nú á götum höfuðborgarinnar Libreville. Í tilkynningu frá hernum segir að hann hafi tekið völdin til að endurreisa lýðræðið í landinu en sama fjölskyldan hefur ráðið þar lögum og lofum í hálfa öld.
Núverandi forseti Ali Bongo tók við völdum 2009. Hann fékk hjartaáfall í október og fór til Mónakó til að ná heilsu á nýjan leik. Orðrómur hefur verið uppi um slæma heilsu hans en hann reyndi að binda endi á hann með nýársávarpi til þjóðarinnar.