Mikil snjóflóðahætta er í Austurrísku Ölpunum og hafa yfirvöld sett hættustigið á fjórða stig af fimm. Í Bæjaralandi hefur snjórinn valdið töluverðum vandræðum, tré hafa brotnað undan þyngd hans og oltið yfir vegi, járnbrautateina og raflínur.
Ekki hafa allir séð sér fært að fara eftir viðvörunum yfirvalda og margir hafa farið á skíði utan skíðasvæða en þau eru lokuð vegna snjóa og snjóflóðahættu. Í Vorarlberg í Austurríki létust tveir skíðamenn í tveimur aðskildum snjóflóðum um helgina. Björgunarmönnum tókst að finna lík mannanna.