Í hverfum efnaðra borgarbúa mætti ætla að repúblikanar gætu sótt góðan stuðning en svo er ekki. Demókratar höfða frekar til kjósenda í þessum hverfum sem og í fátækari hverfum borgarinnar. 76 prósent kjósenda í borginni eru skráðir sem demókratar, 17 prósent sem óháðir og tæplega 7 prósent sem repúblikanar. Í borgarstjórn sitja 11 demókratar og tveir óháðir frambjóðendur. Borgarstjórinn, Muriel Bowser, er demókrati og svört. Hún hefur setið í borgarstjórastólnum síðan 2015, var endurkjörin á síðasta ári en borgarstjórinn er kosinn beinni kosningu.
Í forsetakosningunum 2016 fékk Trump aðeins 13.000 atkvæði í höfuðborginni eða um fjögur prósent.
Það var ekki fyrr en 1961 sem íbúar höfuðborgarinnar fengu að kjósa í forsetakosningum og enn þann dag í dag geta þeir ekki kosið í þingkosningum. Í síðustu fjórtán forsetakosningum hafa frambjóðendur demókrata fengið meirihluta atkvæða í borginni. Þetta á meira að segja við um „vonlausa“ frambjóðendur flokksins eins og Michael Dukakis 1988 og George McGovern 1972.
Í borgarpólitíkinni er staðan sú sama, demókratar ráða þar ríkjum. Bowser fékk til dæmis 80 prósent atkvæða þegar hún var endurkjörinn borgarstjóri á síðasta ári. Í öðru sæti var frambjóðandi Græningja og í þriðja sæti jógakennari, sem bauð fram sem óháður frambjóðandi. Repúblikanar buðu ekki einu sinni fram til borgarstjóraembættisins, svo vonlaus var staða þeirra.