Samkvæmt áhættumatslista fyrir ríki heimsins, sem nokkrir áhugahópar og samtök hafa gert í samvinnu við vísindamenn í Bochum í Þýskalandi, þá er eyjan Vanúatú í Kyrrahafi hættulegasti staður heims. Þar búa um 220.000 manns mjög afskekkt því 1.750 km eru til næstu nágranna sem eru í Ástralíu.
Ísland er á listanum en hins vegar meðal neðstu ríkja eða í 167. sæti af 172.
Við gerð áhættumatsins var tekið tillit til ýmissa þátta, þar á meðal hversu lengi þarf að bíða eftir aðstoð ef til hamfara kemur, hversu margir íbúar geta af sjálfsdáðum komið sér í öruggt skjól og hvernig staða drykkjarvatns verður ef til hamfara kemur. Þessi atriði og mörg önnur eru afgerandi hvað varðar líf og dauða þegar náttúruhamfarir verða.
Samkvæmt nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum hefur náttúruhamförum fjölgað töluvert á undanförnum áratugum. Frá 1997 til 2017 létust um 1,3 milljónir manna í náttúruhamförum og 4,4 milljónir meiddust eða misstu allt sitt og þar með lífsviðurværið. Að sögn SÞ eru það aðallega náttúruhamfarir af völdum loftslagsbreytinga sem hafa færst í aukana.
Náttúruhamfarir eru dýrkeyptar á allan hátt, bæði í mannslífum og fjárhagslega. Samkvæmt uppgjöri frá Swiss Re var kostnaður tryggingafélaga vegna náttúruhamfara á síðasta ári sem svarar til um 3.600 milljarða íslenskra króna.