Fyrr í vetur voru 40 héruð landsins að glíma við hundaæðistilfelli og um miðjan ágúst höfðu tæplega 1.200 smituð dýr verið fönguð.
Taílensk stjórnvöld hugðust bólusetja 10 milljónir hunda og katta fyrir lok september á síðasta ári til að ná tökum á ástandinu en það gekk ekki eftir. Yfirvöld fengu ekki þá tíu milljón bólusetningaskammta sem pantaðir höfðu verið og hluti af bóluefnunum sem fengust voru gömul og léleg að gæðum og gerðu því lítið gagn.
Nú herma fregnir að búið sé að bólusetja rúmlega 3,5 milljónir hunda og katta. Nú geysar hundaæði í 31 héraði af 76 í landinu, þar á meðal í hlutum höfuðborgarinnar Bangkok.
Þrátt fyrir að nafn sjúkdómsins bendi til að hann tengist aðeins hundum þá er það ekki svo. Hann getur borist í margar dýrategundir, ketti, leðurblökur, kýr, apa og menn. Sjúkdómurinn smitast við bit.