Í fréttatilkynningu frá lögreglunni kemur fram að þau sem létust séu:
28 ára kona frá austurhluta Fjóns.
51 árs karlmaður frá norðurhluta Fjóns.
30 karlmaður frá Árósum.
45 ára kona frá Óðinsvéum.
60 ára kona frá Óðinsvéum.
27 ára kona frá miðhluta Fjóns.
59 ára kona frá Kaupmannahöfn.
30 karlmaður frá Grænlandi.
Lögreglan segir að fólkið tengist engum fjölskylduböndum. Ættingjum þeirra hefur verið tilkynnt um andlátin. Lögreglan mun ekki skýra frá nöfnum hinna látnu.
Fjölskylda mannsins frá Grænlandi skýrði sjálf frá nafni hans í gær en hann hét Kasper Brix Bærndt, var ættaður frá Norður-Jótlandi, en bjó á Grænlandi.
Enn er unnið að rannsókn á tildrögum slyssins en lögreglan og stórslysanefndin annast rannsóknina. Reikna má með að hún taki allt að eitt ár. Dagblaðið Politiken skýrði frá því í morgun að vindhraðamælir á Stórabeltisbrúnni hafi verið bilaður á miðvikudaginn og því hafi dönsku járnbrautirnar ekki haft réttar upplýsingar um vindhraða á brúnni en hann skiptir miklu þegar ákvarðanir eru teknar um lestarsamgöngur yfir hana.