Í samtali við BT lýsti hann þessu skelfilega slysi og aðdraganda þess. Eins og flesta daga fór hann um borð í lestina klukkan 7.25 í Nyborg en hann ætlaði til Kaupmannahafnar þar sem hann vinnur. Hann er vanur að setjast í fremsta vagninn og stendur því alltaf á sama stað á brautarpallinum þegar lestin kemur. En á miðvikudaginn gerðist svolítið sérstakt.
„Lestinni var ekið inn á lestarstöðina en lestarstjórinn hemlaði of snemma og því þurfti ég að ganga að lestinni.“
Þegar hann kom að fremsta vagninum ók lestarstjórinn af stað og færði lestina fram um nokkra metra. Þá var Jonas skyndilega við innganginn á öðrum og þriðja lestarvagninum. Hann fór því inn og beygði til hægri og gekk í átt að fremsta vagninum og ætlaði í fremsta vagninn eins og aðra daga. En það voru færri í lestinni þennan dag en venjulega og þegar hann sá laust sæti í næstfremsta vagninum settist hann í það, eins og alltaf vinstra megin því þá nær morgunsólin ekki að skína á hann.
Um fimm mínútum eftir að lestin ók frá Nyborg lestarstöðinn varð slysið.
„Ég heyrði hljóðin ekki svo vel því ég var með heyrnartól á höfðinu. Ég tók fyrst eftir þessu þegar lestin fór að hristast. Þetta gerðist á sekúndubroti. Rúðan sprakk yfir mig og lestinni var snarhemlað.“
Jonas og aðrir í vagninum áttuðu sig fljótt á að hér var um stórslys að ræða. Nær allar rúður voru brotnar, dyrnar höfðu þrýsts inn. Stór granítsteinn, sem var á lestarteinunum, var kominn inn á gólfið í vagninum. Ekki var hægt að opna dyrnar inn í fremsta vagninn og í hinum enda vagnsins lá lífvana maður.
Farþegarnir reyndu að leita skjóls undan vindinum og byrjuðu að hringja til að láta vita af sér. En það gátu ekki allir hringt.
„Ég sá einn liggjandi og þrír veittu honum skyndihjálp en það var ekki hægt að gera mikið fyrir hann.“
Fljótlega komu fyrstu björgunarmenn á vettvang og byrjað var að koma farþegunum frá borði. BT hefur eftir Jonasi að hann sé fyrst núna byrjaður að átta sig á hvað gerðist. Hann slapp vel með handleggsbrot og skrámur og þakkar sínu sæla fyrir að heppnin var með honum þennan dag.