Leitað var úr lofti í gær á meðan hægt var en leit lá alveg niðri í nótt. Norska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Troms að fylgst verði með veðri og leit hafin um leið og óhætt þykir.
„Við sjáum för inn í snjóflóðið en engin út.“
Sagði talsmaðurinn um stóra snjóflóðið. Flóðið er um 300 metra breitt og 600-700 metra langt. Talsmaðurinn sagði að óttast væri að fólkið hefði lent í flóðinu, það hefði átt að vera búið að skila sér úr gönguferðinni fyrir löngu síðan.
Blåbærtinden er vinsælt fjall meðal skíðamanna og fjallgöngumanna. Það var fimm manna hópur sem lagði á fjallið í gær, sænskur karl og sænsk kona auk þriggja Finna. Leiðir þeirra skildust. Sænski karlmaðurinn skilaði sér en hin ekki. Hann tilkynnti um hvarf félaga sinna um klukkan 16 en þá hafði hann ekki séð til þeirra í um tvær klukkustundir.