Aldrei fyrr hefur geimfar rannsakað hlut svo fjarri plánetunni okkar. Bandaríska geimferðastofnunin NASA kynnti fyrstu myndirnar í gær og sögðust vísindamenn þar á bæ fagna því að Ultima Thule líkist snjókarli frekar en keilu eða jarðhnetu en miðað við fyrstu óskýru myndirnar frá geimfarinu mátti álykta sem svo um útlit Ultima Thule.
Ultima Thule er með líkama og höfuð í formi tveggja hluta sem hafa eitt sinn snúist um hvorn annan en á endanum hafa þeir verið komnir svo nærri hvor öðrum að þeir rákust saman og urðu að einum hlut. En Ultima Thule sker sig þó frá hefðbundnum snjókörlum að því leiti að hluturinn er rauður að lit. Ultima Thule er um 33 km að lengd og 14 km að breidd.
New Horizons flaug framhjá Ultima Thule í um 3.500 km fjarlægð en það er ekki löng vegalengd þegar geimferðir eru annars vegar.