Meðal þess sem getur gerst á árinu er að nýtt ríki verði til, Brexit verður hugsanlega að veruleika og/eða ný vandamál því tengd og demókratar munu hefja leit að frambjóðanda sem getur att kappi við Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í forsetakosningunum á næsta ári.
Margir velta fyrir sér hvernig málin munu þróast í Sýrlandi í kjölfar yfirlýsingar Trump um að Bandaríkjaher muni nú hverfa þaðan þar sem fullnaðarsigur hafi unnist á hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið. Ekki eru allir þessu sammála og þar á meðal eru herforingjar í Bandaríkjaher. Yfirlýsing Trump kom mörgum á óvart og óvíst er hver þróun þessara mála verður, nú þegar eru bandarískir stjórnmálamenn farnir að draga úr vægi yfirlýsingar Trump og segja að bandarískir hermenn verði ekki kvaddir heim að sinni. Kúrdar hafa miklar áhyggjur af þessum fyrirætlunum Trump enda hafa Tyrkir lýst því yfir að þeir ætli sér að ganga á milli bols og höfuðs á hersveitum Kúrda en Tyrkir segja Kúrda vera hryðjuverkamenn. Staðan hefur nú þegar flækst aðeins því sýrlenski stjórnarherinn hefur sent hersveitum Kúrda aðstoð og Rússar styðja þá. Ef Bandaríkjaher dregur sig úr út Sýrlandi er líklegt að staða mála í þessu stríðshrjáða landi muni enn á ný flækjast.
Nú eru tæplega þrír mánuðir þar til Bretar yfirgefa Evrópusambandið, Brexit, ef allt gengur eftir. Samningur um útgönguna hefur ekki enn verið samþykktur á breska þinginu og óvíst hvort að samningurinn sem liggur fyrir því verði samþykktur. Nú eru uppi raddir meðal breskra stjórnmálamanna um að ef þingið samþykkir samninginn ekki verði að fresta útgöngunni. Bresk stjórnvöld búa sig undir útgöngu án samnings, svokölluð hörð lending, og hafa gert ýmsar ráðstafanir til að reyna að tryggja að samfélagið geti gengið sinn vanagang. Það er eiginlega ómögulegt að spá fyrir um málalyktir Brexit en hins vegar er ljóst að útgangan mun hafa mikil áhrif í Evrópu og víðar en hver þau verða mun tíminn einn leiða í ljós.
Samskipti Eþíópíu og Eretru hafa batnað mikið að undanförnum eftir áralangan fjandskap og átök þessara tveggja grannríkja. Abiy Ahmed, sem situr á valdastól í Eþíópíu, hefur breytt miklu þar í landi og má þar nefna að tjáningarfrelsi hefur verið aukið og mun fleiri konur hafa tekið við mikilvægum embættum en verið hefur fram að þessu. Hann er nú þegar nefndur til sögunnar sem líklegur friðarverðlaunahafi Nóbels enda er friðarsamningurinn við Eretreu ótrúlegur áfangi. Ahmed hefur grafið stríðsöxina og samvinna ríkjanna fer sífellt vaxandi.
Stærsta verkefni demókrata á árinu er að finna frambjóðanda sem á möguleika á að sigra Donald Trump í forsetakosningunum 2020. Mikið þarf að gerast til að Trump bjóði sig ekki fram á nýjan leik fyrir repúblikana og því beinast sjónir demókrata að honum og hver getur sigrað hann. Bernie Sanders hefur verið nefndur til sögunnar en aldur hans þykir vinna gegn honum en hann er orðinn 77 ára. Milljarðamæringurinn Michael Bloomberg, fyrrum borgarstjóri í New York, hefur verið nefndur til sögunnar sem og John Kerry, utanríkisráðherra í stjórn Barack Obama, og hin heimsþekkta sjónvarpskona Oprah Winfrey. Þá hefur Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður demókrata fyrir Massachusetts, tilkynnt um framboð sitt.
Mótmælin í Frakklandi í desember einkenndust af gulum vestum sem mótmælendur klæddust. Í upphafi snerust mótmælin um hækkun á álögum á bensínverði sem átti að að vera ein af aðgerðum Frakka til að uppfylla ákvæði Parísarsáttmálans um loftslagsbreytingarnar. Mótmælin stækkuðu að umfangi og fóru að snúast um ýmislegt fleira er varðar efnahagsmálin. Reikna má með að mótmælin muni halda áfram á þessu ári og jafnvel breiðast út til fleiri ríkja. Nokkrir íslenskir verkalýðsleiðtogar hafa nú þegar keypt sér gul vesti svo Ísland verður kannski eitt þessara ríkja.
Hver hefur heyrt um Bougainville? Fyrir þá sem ekki vita er þetta eyja sem tilheyrir Papúa Nýju-Gíneu. Þessi eyja gæti orðið nýjasta ríki heimsins á þessu ári. Frá 1988 til 1998 var blóðugt borgarastríð háð á eyjunni og féllu 15.000 manns í því. Þegar samið var um frið var eitt ákvæði samningsins að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi haldin um sjálfstæði eyjunnar og á hún að fara fram fyrir 2020. Nú hefur verið ákveðið að atkvæðagreiðslan fari fram 15. júní næstkomandi.
Víða verður kosið í heiminum á árinu. Líklegast munu þingkosningarnar í Nígeríu, Ísrael, Úkraínu og Afganistan verða þær sem mest áhrif munu hafa á gang heimsmála.