Í gær fundu björgunarmenn 11 mánaða barn á lífi í rústunum. Björgunarmenn heyrðu allt í einu barnsgrát berast úr rústunum og hættu samstundis öllum aðgerðum og slökktu á vinnuvélum til að geta staðsett grátinn.
RT hefur eftir einum björgunarmannanna að barnið hafi hætt að gráta þegar þögn brast á meðal björgunarmanna en þeir hafi þá hrópað til þess og þá hafi það aftur byrjað að gráta. Þeir fundu barnið síðan í framhaldinu en það hafði þá legið undir rústunum í 36 klukkustundir í 20 stiga frosti.
Faðir barnsins, Yevgeny Fokin, sagði í samtali við rússneskar sjónvarpsstöðvar að um sannkallað nýárskraftaverk hafi verið að ræða. Eiginkona hans slapp naumlega úr rústunum ásamt þriggja ára syni þeirra hjóna. Litla barnið var að sögn björgunarmanna í vöggunni sinni og pakkað inn í hlýja sæng þegar það fannst. Læknar telja að barnið muni ná sér.