Sænska vegagerðin ráðleggur fólki að halda sig heima við nema brýna nauðsyn beri til að fara út. Vindhraðinn mældist allt að 34,9 metrar á sekúndu í Svíþjóð í gærkvöldi en fellibylsstyrkur er 32 metrar á sekúndu. Í nótt mældist vindhraðinn enn meiri eða 38,5 metrar á sekúndu.
Eyrarsundsbrúnni var lokað klukkan 3 í nótt og verður lokuð til klukkan 7 hið minnsta.
Reikna má með samgöngutruflunum fram eftir degi vegna veðurs og trjágróðurs sem hefur fokið og lent á vegum.