Þegar fellibylurinn Florence var á leið til Bandaríkjanna nýlega stefndi allt í að þar yrði um einn öflugasta fellibyl, sem skollið hefur á Bandaríkjunum, að ræða. Sem betur fer dró þó heldur úr styrk Florence þegar hún nálgaðist land og því varð ástandið ekki jafn slæmt og óttast var en þó nógu slæmt. Að minnsta kosti 43 létust og eignatjónið var mikið. Á Filippseyjum varð ofurfellibylurinn Mangkhut að minnsta kosti 155 að bana á svipuðum tíma.
Íbúar á ákveðnum svæðum í Norður-Karólínu voru beðnir um að flýja heimili sín undan Florence „áður en það væri um seinan“ en í Suður-Karólínu var íbúum sagt að ef þeir færu ekki eftir ráðleggingum yfirvalda „yrðu þeir skildir eftir án hjálpar“.
Sérfræðingar hafa fram að þessu talið að það væri nóg að flokka fellibylji í 5 styrkleikaflokka og gátu ekki ímyndað sér að fellibyljir með vindhviðum, sem ná allt að 90 m/s, gætu myndast. Þegar fellibylurinn Katrina reið yfir Bandaríkin 2005 voru öflugustu vindhviðurnar 75 m/s.
Þegar fellibyljir myndast gufar sjór upp í loftið. Þar þéttist hann og verður síðan að úrkomu. Þegar þetta gerist losnar um mikinn hita en það er mikilvægasta uppspretta fellibylja. Samhliða hnattrænni hlýnun verður sjórinn hlýrri og gufar hraðar upp. Þetta veldur því að meiri raki myndast í loftinu og því getur losnað um orku hærra uppi en áður. Af þessum sökum er fræðilega mögulegt að það geti losnað um meiri orku til að knýja fellibylji áfram og gera þá enn öflugri hefur Dagbladet eftir Tore Furevik forstjóra Bjerknes loftslagsrannsóknarmiðstöðvarinnar.
The Guardian segir að Jeff Masters, einn þekktasti veðurfræðingurinn í Bandaríkjunum, hafi fyrstur byrjað að tala um að fjölga styrkleikaflokkum fellibylja í sex. Í því sambandi nefndi hann „Stóra fellibylinn“ 1780 en hann var mjög öflugur og kom fólki að óvörum og varð 22.000 manns að bana. Hann var svo öflugur að börkur flettist af trjám, eitthvað sem talið hefur verið að aðeins fimmta stigs fellibylur gæti gert. Masters byggir spádóma sína um öflugri fellibylji á rannsókn Kerry Emanuel, hjá MIT, og Ning Lin, hjá Princeton háskóla, um veðurfar og hættur sem geta stafa af því. Í rannsókn sinni komust þeir að þeirri niðurstöður að Cairns í Ástralíu og Tampa í Flórída væru þeir staðir í heiminum sem væru í einna mestri hættu vegna veðurs og efuðust um að yfirvöld gerðu sér grein fyrir hættunni eða hefðu gert ráðstafanir. Furevik tekur undir þetta og segir að það virðist sem mannkynið eigi erfitt með að undirbúa sig undir slíka atburði ef þeir hafa ekki gerst áður.
„Ég er hræddur um að svo öflugur fellibylur muni koma að óvörum“.
Segir hann.