Það er fyrirséð í Danmörku að innan fárra ára verður mikill skortur á prestum. Þetta er vegna þess að mjög stórir árgangar presta eru að fara á eftirlaun á næstu árum og ekki eru nægilega margir prestar útskrifaðir úr námi árlega til að mæta þessu. Af þessum sökum hefur nefnd á vegum kirkjumálaráðuneytisins lagt fram tillögu um að fólk, sem hefur lokið framhaldsnámi í háskóla, fái að starfa sem prestar að undangenginni þriggja ára guðfræðimenntun.
Samkvæmt tillögunni á fólk sem hefur lokið framhaldsnámi í greinum á borð við trúarbragðafræði, heimsspeki, sálfræði og öðru námi á hugvísindasviði að geta tekið fyrrgreint þriggja ára guðfræðinám.
Fimmti hver prestur í Danmörku er eldri en sextugur og því ljóst að margir munu hverfa úr embættum á næstu árum. Þá hefur það aukið á vandann að margir þeirra sem útskrifast úr hefðbundnu guðfræðinámi velja önnur störf en prestsstörf.