Er mánudagurinn 9. júlí 2018 dagurinn sem íslenska ferðamannabólan sprakk formlega? Þetta er spurningin sem margir hafa spurt sig að í dag eftir afkomuviðvörun Icelandair sem leitt hefur til þess að hlutabréf í félaginu gjörsamlega hrundu í verði við opnun markaða í morgun. Var það einnig gert á Kafistofunni í morgun.
Skýring Icelandair á snarminnkandi tekjum er sú að Ísland sé ekki lengur samkeppnishæft vegna verðlags og gengis. Miklar afbókanir séu farnar að bíta og ekki sjái fyrir endann á þeim ósköpum.
Þessi tíðindi — sem staðfest eru í afkomu Icelandair — eru tilfinning sem aðilar í ferðaþjónustu hafa upplifað sterkt undanfarið. Allsstaðar eru nú hótelherbergi laus, veitingastaðir eru hálftómir og afþreyingarfyrirtæki finna fyrir miklum samdrætti.
Þótt farþegatölur sýni enn fjölgun ferðamanna felst það aðallega í farþegum sem millilenda í Leifsstöð. Slíkir ferðamenn koma ekki inn í landið til að eyða gjaldeyri og skekkja því alla mynd.
Tilkynningin frá Icelandair og fjórðungshrun hlutabréfa í félaginu eru því staðfesting á nýjum veruleika. Því er nú spáð að hætt sé við að mörg fyrirtæki lifi ekki haustið af.