Á Kaffistofunni er hvíslað að hveitibrauðsdagar nýs meirihluta í Reykjavík verða líkast til færri en alla jafna hjá nýjum valdhöfum, þar sem mörgum finnst gamli meirihlutinn sem féll aðallega hafa fengið örlitla andlitslyftingu í boði Viðreisnar. Dagur B. Eggertsson stjórnar enn öllu eins og hann hefur gert undanfarin ár, fyrst sem formaður borgarráðs og svo sjálfur sem borgarstjóri.
Engum blöðum er um það að fletta, að stjórnarandstaða Eyþórs Arnalds og Vigdísar Hauksdóttur verður harðsnúin og baráttuglöð, en kannski um leið nokkuð fyrirsjáanleg. Það verður líklega ekki erfitt fyrir Dag að skapa stemningu innan meirihlutans til þess að takast á við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk næstu árin.
En það er vandinn til vinstri sem líkast til verður mesta ógn hins nýja meirihluta. Jafnvel banabiti hans. Til vinstri er nefnilega Sósíalistaflokkurinn og það verður líkast til málefnalegt aðhald úr þeirri áttinni sem verður borgarstjórnarmeirihlutanum skeinuhættast.