Skoðanakannanir eru almennt ekki taldar mjög áreiðanlegar í Tyrklandi en almennt sýna þær að Erdogan muni ekki tryggja sér meirihluta atkvæða á sunnudaginn og því verði að hafa aðra umferð þann 8. júlí. Ef andstæðingum hans tekst þá að sameinast gegn honum getur svo farið að Erdogan verði í vandræðum en hann hefur stýrt Tyrklandi síðan 2002.
Erdogan boðaði til kosninga á þeim grundvelli að aðstæður væru þannig að þjóðin þyrfti sterkan forseta, ekki síst vegna sóknar tyrkneska hersins gegn Kúrdum í Sýrlandi. En það er annað sem hangir á spýtunni því Tyrkir samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári að auka völd forsetans eftir næstu forsetakosningar. Eftir breytingarnar verður forsetinn nær einráður og þær opna á möguleikann á að Erdogan geti setið í embætti í 10 ár til viðbótar.
Ákveðinnar þreytu er farið að gæta í garð Erdogan meðal Tyrkja en staða hans er gríðarlega sterk í dreifðari byggðum landsins en borgarbúar eru síður ánægðir með hann. Á valdatíma hans hafa miklar efnahagslegar framfarir orðið í landinu og mikil uppbygging innviða hefur átt sér stað. Hagur flestra hefur vænkast og margir tengja það beint við Erdogan. En efnahagsmálin eru ákveðinn höfuðverkur þessa dagana því uppbygging innviða hefur að mestu verið fjármögnuð með erlendum lánum og bætt lífskjör eru að stórum hluta tilkomin vegna fjárstreymis frá ríkinu. Nú blikka aðvörunarljós um ofhitnun hagkerfisins, verðbólgan er 13 prósent, atvinnuleysi er mikið og verð á daglegum nauðsynjum fer hækkandi. Erlendir fjárfestar halda að sér höndum og gengi tyrknesku lírunnar hefur fallið um 20 prósent gagnvart bandaríkjadal frá áramótum.
Erdogan hefur sterk tök á fjölmiðlum en 90 prósent þeirra eru á hans bandi. Fjölmiðlar, sem hafa verið gagnrýnir á hann, hafa að undanförnu verið keyptir af fjölmiðlum sem eru honum hliðhollir. Margir blaðamenn hafa flúið land og um 200 sitja í fangelsi. Aðalritstjóri stærsta dagblaðs stjórnarandstöðunnar, Cumhuriyet, er flúinn til Þýskalands. Hann hefur líkt stjórn Erdogan við einræðið í Suður-Ameríku á áttunda áratugnum.
Stuðningsmenn Erdogan telja hann hins vegar vera sterkan stjórnmálamann sem hafi skapað hið nýja og nútímalega Tyrkland sem hefur tryggt sér sterka stöðu á alþjóðavettvangi. Þeir fagna þegar hann hellir sér yfir Þýskaland og ESB og styðja heilshugar við bakið á hernaði gegn Kúrdum.
En spurningin er hvort stuðningurinn við Erdogan hafi minnkað svo mikið að hann sigri jafnvel ekki í kosningunum á sunnudaginn. Margir bíða spenntir eftir niðurstöðunni.