Nú hafa um rúmlega 200.000 manns skráð sig í hópmálssóknina en frestur til skráningar rann út á miðvikudaginn. Lögmenn lögmannsstofunnar DLA Piper, sem mun sjá um málssóknina, ætla að sækja um framlengingu á fresti til skráningar þar sem áhuginn sé svo mikill. Það var undirréttur sem ákvað hver fresturinn ætti að vera en dómstólar hafa samþykkt gjafsókn í málinu.
Lagt er upp með að höfðað verði mál þar sem krafist verður endurgreiðslu á ólöglega innheimtum virðisaukaskatti 10 ár aftur í tímann. Þeir sem greiddu afnotagjald í þessi 10 ár munu þá fá 4.703 danskar krónur endurgreiddar frá ríkinu ef málið vinnst.
Þetta verða stór útgjöld fyrir ríkissjóð ef DR tapar málinu því áætlaður kostnaður fyrir hvert ár er um einn milljarður á ári eða um 10 milljarðar í heildina en það svarar til tæplega 170 milljarða íslenskra króna.
TV2 hefur eftir einum lögmanna DLA Piper að reikna megi með að meðferð málsins muni taka mörg ár, jafnvel allt að fimm ár.