Í tvo daga tókust enskir og rússneskir stuðningsmenn eða öllu heldur fótboltabullur á. 30 Englendingar enduðu á sjúkrahúsi, fimm þeirra voru nær dauða en lífi. Rússarnir fóru mikinn og ofbeldisverk þeirra voru mjög gróf og þeir eirðu nánast engum. Þeir hikuðu ekki við að ganga í skrokk á liggjandi mönnum og mátti einna helst halda að þeir ætluðu að drepa menn.
Í dag hefst HM í knattspyrnu í Rússlandi og margir hafa áhyggjur af öryggismálum þar og hvað rússnesku bullurnar muni gera. Ef 200 rússneskar bullur gátu lumbrað á 2.000 Englendingum í Frakklandi, hvað geta þeir þá gert á heimavelli sínum?
Rússneskar fótboltabullur, sem eru nánast eingöngu karlmenn, eru ekki venjulegar fótboltabullur sem mæta á fótboltaleiki og slást. Í þeirra huga er ofbeldi í tengslum við fótbolta vel skipulagt, það er lífsstíll.
Þegar þeir mættu til Marseille voru margir þeirra með bardagahanska, góma til að vernda tennurnar og GoPro-myndavélar á bringunni til að taka ofbeldisverkin upp. Þeir æfa mikið og margir þeirra drekka ekki áfengi. Ein helsta fyrirmynd þeirra er Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, en hann var áður liðsmaður leyniþjónustunnar KGB og er áhugamaður um bardagaíþróttir.
Rússneskar fótboltabullur hittast og æfa saman um allt Rússland, þeir æfa box, glímur og ýmislegt úr hinum ýmsu bardagaíþróttum.
„Þetta er fólk sem lifir fyrir fótboltaofbeldi, þess vegna tekur það þetta svona alvarlega. Þetta er ekki fólk sem skellir sex bjórum í sig fyrir leik og lendir síðan upp á kant við lögregluna.“
Hefur Norska ríkisútvarpið eftir Toke Møller Theilade ritstjóra www.russianfootballnews.com.
Hjá þeim öfgafyllstu er fótboltaofbeldið orðið íþrótt. Íþrótt þar sem þeir hittast úti í skógi, utan sjónmáls yfirvalda, nærri stórum og litlum bæjum til að berjast berhentir. Reglurnar eru ekki flóknar, það er barist þar til andstæðingurinn er meðvitundarlaus. Svo lengi sem enginn deyr er allt í lagi.
Á rússnesku Facebook, VK, eru margir hópar þar sem bullurnar ræða sín mál og birta myndir af æfingum og ofbeldisverkum.
Margir ráðamenn í Kreml eru ánægðir með bullurnar og hrósa þeim fyrir það sem þær gera. Pútín lýsti opinberlega yfir vanþóknun sinni á framferði þeirra en á ráðstefnu í St. Pétursborg á síðasta ári tókst honum illa að leyna aðdáun sinni á rússnesku bullunum:
„Ég skil ekki hvernig 200 Rússum tókst að berja mörg þúsund Breta.“
Það er ekki gott að segja hvort rússnesku bullurnar verði áberandi á HM í Rússlandi. Rússneskum stjórnvöldum er mikið í mun að mótið fari vel fram og ásýnd Rússlands bíði ekki hnekki.
Rússnesku bullurnar hafa gert samning sín á milli um að vera ekki til vandræða í tengslum við HM og að ræða ekki við fjölmiðla. Rússnesk yfirvöld treysta þessu ekki alveg og hafa gripið til ráðstafana. Skrá hefur verið gerð yfir verstu bullurnar og þær fá ekki að mæta á leiki.
Pútín skrifaði undir lög í fyrra sem hækkuðu sektir fyrir fótboltaofbeldi upp í sem nemur um 30.000 íslenskum krónum. Þá eiga óæskilegar bullur allt að 15 daga fangelsi yfir höfði sér ef þær koma nærri leikvöngum.
Undanfarið ár hafa yfirvöld kerfisbundið handtekið ofbeldisfyllstu bullurnar og leiðtoga þeirra. Þá hefur lögreglan hringt í margar bullur og tilkynnt þeim að fylgst sé með þeim og húsleitir hafa verið gerðar heima hjá þeim. Aðferðir sem yfirleitt eru aðeins notaðar í baráttunni gegn hryðjuverkum eru notaðar til að koma skýrum skilaboðum á framfæri: Ofbeldisverk á HM munu hafa alverlegar afleiðingar.