Funheitur forleikur og eggjandi undirföt eru síður líkleg til að gera maka þinn ánægðan með kynlífið en að segja við hann réttu orðin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nokkuð viðamikillar bandarískrar könnunar meðal 39 þúsund einstaklinga.
Að segja við maka þinn „ég elska þig“ meðan á kynlífi stendur eru hvað líklegast til að gera maka þinn ánægðan með kynlífið, samkvæmt niðurstöðunum. Könnunin var framkvæmd af vísindamönnum við Chapman University í Bandaríkjunum, en skoðuð voru svör 39 þúsund gagnkynhneigðra einstaklinga sem annað hvort voru giftir eða höfðu verið í sambandi í minnst þrjú ár. Meðalaldur kvenna sem tóku þátt í könnuninni var 40 ár en meðalaldur karlanna var 46 ár.
Niðurstöðurnar sýndu að þau pör sem tjá sig og hafa uppbyggileg samskipti meðan á kynlífi stendur voru líklegri til að verða ánægð með kynlífið. Meðal þess sem bætti kynlífið, að mati þeirra sem tóku þátt, voru hrósyrði frá makanum, til dæmis í sambandi við hvað hann gerði gott meðan á kynlífinu stóð. Þá bætti það kynlífið að tala um kynlíf við makann, til dæmis í gegnum smáskilaboð eða tölvupóst meðan á vinnu eða skóla stóð. En orðin „Ég elska þig“ meðan á kynlífi stóð voru líklegust til að tryggja gott kynlíf.
Fleira athyglisvert kom fram í niðurstöðunum. Þannig sögðust 83 prósent aðspurðra hafa verið ánægðir með kynlífið fyrstu sex mánuðina í sambandinu. Með tímanum minnkaði ánægja fólks og sögðust aðeins 43 prósent karla og 55 kvenna vera ánægð með kynlífið í sambandinu.