Á öðrum tímanum í nótt hringdi 53 ára karlmaður í lögregluna í Árósum og sagðist hafa orðið íbúanum á neðri hæð hússins, sem hann býr í, að bana. Þegar lögreglan kom á vettvang á Engdalsvej í Brabrand nærri Árósum fann hún nágrannann, sem var 56 ára kona, látna á götu úti. Hún hafði verið stungin mörgum sinnum.
Maðurinn var handtekinn. Ekstra Bladet hefur eftir talsmanni lögreglunnar að ekki sé vitað af hverju maðurinn myrti konuna. Vettvangsrannsókn hefur staðið yfir í alla nótt og gerir enn.