Meðal helstu niðurstaðna er að karlar nota klám meira en konur. Níu af hverjum tíu körlum höfðu notað klám í einhverri mynd síðastliðinn mánuð en hjá konum var hlutfallið sex af hverjum tíu.
Að meðaltali notuðu karlar klám í 67 mínútur á viku en konur í 21 mínútu. Mesta notkunin er hjá ungu fólki en með aldrinum dregur úr henni. Jafnframt dregur úr áhuga á sjálfsfróun með aldrinum. Hjá konum eykst notkun á klámi í textaformi með aldrinum.
Hjá báðum kynjum eru það klámmyndir, lifandi myndir, sem eru vinsælastar en um 75 prósent af heildarklámnotkun karla er á slíku efni. Hjá konunum er hlutfallið 56 prósent. Klám í textaformi er tæplega 30 prósent af klámnotkun kvenna en um 5 prósent hjá körlum. 11 prósent kvenna nota nær eingöngu klám í textaformi en hjá körlum á þetta næstum ekki við, svo fáir karla nota bara klám í textaformi.
Djarfar ljósmyndir eru um 5 prósent af klámnotkun kvenna en tæplega 20 prósent af klámnotkun karla.
Það er mikill munur á af hverju kynin nota klám. 82 prósent karlanna sögðust nota það til örvunar þegar þeir fróa sér en hjá konum var hlutfallið 67 prósent. 70 prósent karla sögðust nota klám til að örvast kynferðislega en hjá konunum var hlutfallið 64 prósent. 40 prósent karla sögðust nota klám sér til afþreyingar en hjá konunum var hlutfallið 34 prósent.
Forvitni um ákveðnar kynferðislega athafnir og kynlífstækni auk sameiginlegrar notkunar með makanum var eitthvað sem um 30 prósent sögðust nota klám til og var hlutfallið um það bil það sama hjá báðum kynjum.
Þriðji hver karl sagðist nota klám þegar makinn væri ekki til í tuskið eða gæti það ekki. Hjá konum var hlutfallið 16 prósent.
Flestir sögðust alls ekki þurfa að nota klám til að fá fullnægingu.