fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Pressan

Er líf á Mars?

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 30. desember 2018 20:00

Mars Eitt sinn fullt af vatni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Marsmaður. Dularfull vera með mörg mismunandi andlit og líkamsform sem hefur lifað í hugum manna í mörg hundruð ár. Áhugi okkar á Mars, Rauðu plánetunni, hefur lengi verið traust umgjörð um hugmyndir okkar og kannski drauma um að við séum ekki ein í alheiminum. Það þarf því ekki að undrast að geimferðastofnanir hafi mikinn áhuga á Mars og auðvitað skemmir ekki fyrir að plánetan er ekki svo fjarri jörðinni okkar svo ferðalög þangað eru möguleg. Nýlega lenti InSight, geimfar bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, á Mars en því er ætlað að vinna að jarðvísindarannsóknum.

NASA hefur um árabil stundað rannsóknir á Mars, bæði með hinum svokölluðu Marsbílum, Curiosity og Opportunity, og fjölmörgum gervihnöttum sem eru á braut um Mars. Aðrar geimferðastofnanir hafa einnig sinnt rannsóknum á Mars og má þar nefna Evrópsku geimferðastofnunina. Það er því óhætt að segja að engin pláneta í sólkerfinu, að jörðinni undanskilinni, hafi verið rannsökuð jafn mikið og Mars. Ekki er enn ljóst hvort líf hafi einhvern tímann þrifist á Mars en draumurinn um að svo hafi verið, eða jafnvel sé, lifir enn.

Ein fyrsta þekkta frásögnin af lífi á Mars er frá 1758 en þá skrifaði sænski vísindamaðurinn Emanuel Swedenborg um andleg samskipti við anda frá Mars. Þetta er auðvitað engin vísbending um líf á Mars en á þessum tíma hefur þetta eflaust þótt stórmerkilegt. Árið 1877 rannsakaði Giovanni Schiaparelli Mars í gegnum sjónauka og tók þá eftir mynstri á yfirborðinu sem hann lýsti og reyndi að kortleggja. Rangtúlkun á skrifum hans yfir á ensku varð þess valdandi að orðið „canal“ (skurður) var notað um þetta mynstur. Það hafði mikil áhrif því jarðarbúum var í fersku minni að Súesskurðurinn hafði nýverið verið tekinn í notkun. Af þeim sökum tengdi fólk orðið „canal“ við skurð gerðan af vitsmunaverum og taldi að vitsmunaverur hefðu grafið skurði á Mars.

Árið 1894 styrkti bandaríski stjörnufræðingurinn Percival Lowry þessar hugmyndir um skurðina með skrifum sínum og lengi á eftir taldi fólk að líf væri á Mars. Í kjölfar vísindamannanna kom síðan skapandi fólk á borð við H.G. Wells sem sendi árið 1898 frá sér bókina War of the Worlds sem snerist einmitt um innrás Marsbúa á jörðina. Þar með var heimur vísindaskáldsagna orðinn til. Á næstu árum streymdu bækur, teiknimyndabækur og myndir á markaðinn þar sem siðmenntaðar, meira eða minna, verur frá Mars voru kynntar til sögunnar. Þekktasta verkið er líklegast útvarpsleikrit, byggt á War of the Worlds sem var útvarpað 1938 í Bandaríkjunum. Það var að sögn svo raunverulegt að margir hlustendur fylltust skelfingu vegna yfirvofandi innrásar Marsbúa. En skelfingin var þó ekki eins mikil og oft hefur verið látið í veðri vaka í gegnum tíðina.

War of the Worlds
Orrustuvél frá Mars.

Tæknilegar framfarir

Eftir því sem tækninni fleygði fram var hægt að komast nær plánetunum en bara með að horfa á þær í gegnum sjónauka. Árið 1965 tók Mariner 4 fyrstu myndina af annarri plánetu og 1976 birti NASA nýja mynd af yfirborði Mars. Viljug augu, og það var nóg af þeim, töldu sig sjá andlitsmynd á steini. Þessu vísuðu vísindamenn á bug en þetta var eins og eldsneytisinnspýting fyrir hugmyndirnar um líf á Mars. Það var ekki fyrr en 1998 sem NASA tók aftur mynd af þessum sama steini og með nýrri og miklu betri myndavélatækni varð erfiðara að standa fast á að hér væri um andlit að ræða.

Til Mars hafa verið send 18 geimför. Fimm náðu aldrei á leiðarenda, fjögur hröpuðu til jarðar á Mars og tvö eyðilögðust í lendingu. Þau sjö sem hafa náð alla leið á áfangastað hafa tekið nærmyndir af plánetunni. Enn er nóg af viljugum augum og margir hafa talið sig sjá allt frá verum, sem líkjast mönnum, til nagdýra og annarra vera. Vísindamenn hafa bent á að það sé 60 stiga frost á Mars og að þar sé enginn lofthjúpur sem veiti vernd eins og hér á jörðinni og því séu lífsskilyrði þar mjög erfið. Hugleiðingum fólks um að það sjái verur á myndunum hefur verið hafnað og rök færð fyrir að í slíkum tilfellum sé heilinn að stríða fólki því hann hefur hæfileika til að búa til myndir sem fólk vonast til að sjá.

Vísindamenn hafa lengi verið nokkuð sammála um að eitt sinn hafi verið mikið af frosnu vatni á Mars. Árið 2015 sló NASA því föstu að þar væri einnig fljótandi vatn. Þá sögðu menn að öruggt væri að fljótandi vatn væri að finna á Mars við ákveðnar aðstæður. Vatnið er þó að sögn mun saltara en það sem er hér á jörðinni en það er einmitt saltið sem kemur í veg fyrir að vatnið frjósi.

Curiosity, annar Marsbíla NASA, hefur fundið greinileg ummerki um lífrænar sameindir á Mars en þær gætu verið komnar frá lifandi verum. Bíllinn hefur verið að störfum á svæði þar sem var haf fyrir um 3,5 milljörðum ára. Þetta hefur eðlilega ýtt undir vonir og sannfæringu sumra um að líf hafi eða sé á Mars. Telja verður líklegt að við munum fá svar við því á næstu árum enda er sífellt verið að auka rannsóknir á Mars og virðist sem ekki séu svo ýkja mörg ár í að menn verði sendir þangað. En hvort þeir snúi aftur eða fari aðeins aðra leiðina er svo annað mál.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Egill Þór er látinn
Pressan
Í gær

Næringarfræðingur segir að þessar matvörur eigi fólk aldrei að borða

Næringarfræðingur segir að þessar matvörur eigi fólk aldrei að borða
Pressan
Í gær

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hver stal viskíi að verðmæti 12 milljóna?

Hver stal viskíi að verðmæti 12 milljóna?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump segir tíma til kominn að hætta klukkubreytingum

Trump segir tíma til kominn að hætta klukkubreytingum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Telur þetta sanna aðkomu einræðisherrans að mjög umfangsmikilli dópframleiðslu

Telur þetta sanna aðkomu einræðisherrans að mjög umfangsmikilli dópframleiðslu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 6 dögum

Óhugnanlegur öryggisbrestur – Mörg hundruð sýni af banvænum veirum horfin

Óhugnanlegur öryggisbrestur – Mörg hundruð sýni af banvænum veirum horfin
Pressan
Fyrir 6 dögum

Segist hafa fengið klamýdíu af tæki í líkamsræktarstöð

Segist hafa fengið klamýdíu af tæki í líkamsræktarstöð