Þetta skrifaði Klara Nordell, 26 ára Svíi, á Facebook eftir að Norðmaðurinn Petter Northug tilkynnti tárvotur að hann ætli að leggja skíðin á hilluna og hætta keppni í skíðagöngu en hann hefur um árabil verið einn fremsti skíðagöngumaður heims. Með færslunni birti Klara mynd af sér með skilti sem á stóð:
„Petter Northug, viltu fara á stefnumót með mér?“
Færslan vakti mikla athygli og fór á flug um netheima og náði auðvitað á endanum augum Northug sem svaraði skilaboðum Klöru en þó á ansi tvíræðan hátt. Hann er ekki þekktur fyrir að halda aftur af skoðunum sínum eða húmor og það gerði hann heldur ekki í svari sínu til Klöru.
Hann birti tvær myndir á Instagram þar sem hann hafði sett eigið andlit á auglýsingu fyrir kvikmyndina „Kongens valg“. Höfuð Northug var að sjálfsögðu sett á líkama konungsins. Myndin fjallar um flótta Hákons Noregskonungs undan nasistum í síðari heimsstyrjöldinni. Undir myndunum stendur síðan „Kongens nej“ og „Kongens ja“. Þessum myndum deildi hann með rómantískum skilaboðum Klöru.
TV2 hefur eftir Klöru að það sé skemmtilegt að Northug hafi svarað henni en hún viti ekki hvernig hún á að túlka svar hans. Hún sagði að hugmyndin að stefnumótatilboði hennar til Northug hafi vaknað í gríni á milli nokkurra vinkvenna og hafi hún ákveðið að hrinda þessu í framkvæmd.