Grunur vaknaði strax um að Ísraelsher hefði staðið á bak við árásirnar og nú segir AP að háttsettur heimildarmaður innan Ísraelshers hafi staðfest þetta. Herinn hefur þó ekki staðfest þetta opinberlega.
Rússar hafa gagnrýnt árásirnar sem þeir segja hafa valdið hættu fyrir farþegaflug á svæðinu. Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins sagði í gær að sex F-16 orustuþotur hafi gert „ögrandi“ árás á skotmörk í Sýrlandi á sama tíma og tvær farþegaflugvélar voru að lenda í Damaskus og Beirút í Líbanon.
Ríkisstjórn Líbanons hefur í hyggju að senda kvörtun til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna málsins en hún segir að nærri hafi legið að stórslys yrði þegar ísraelsku herflugvélarnar hafi flogið mjög nærri farþegaflugvél í líbanskri lofthelgi.
Rússar segja að 14 af 16 eldflaugum Ísraelshers hafi verið skotnar niður en heimildarmaður AP segir að allar eldflaugarnar hafi hæft skotmörk sín. Ísraelsmenn hafa gert margar loftárásir á skotmörk í Sýrlandi á undanförnum árum en þau hafa flest verið tengd Írönum eða bandamönnum þeirra í Hizbollah en báðir þeir aðilar styðja stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta eins og Rússar.