Silje hafði verið undir smásjá norskra barnaverndaryfirvalda um hríð. Þetta hófst 2015 en þá vöknuðu grunsemdir hjá barnaverndaryfirvöldum um hæfi og getu Silje til að annast eldri dóttur sína en Silje var talin misnota verkjalyf og það hafi gert líf hennar ruglingslegt og valdið síþreytu hjá henni. Silje flúði til Spánar með dóttur sína til að komast undan norskum yfirvöldum. Lögreglan blandaðist í málið og lýst var eftir Silje á alþjóðavettvangi fyrir að hafa numið dóttur sína á brott. Hún var fljótlega handtekin á Spáni en málið var fljótlega fellt niður og ekkert meira varð úr því.
Þegar hún eignaðist aðra dóttur 2017 voru starfsmenn barnaverndaryfirvalda á sjúkrahúsinu að sögn Aftenposten. Enn voru uppi efasemdir um getu Silje til að annast barn sitt. Í framhaldinu stakk hún af úr landi.
Í fyrstu fékk hún dvalarleyfi til bráðabirgða í Póllandi en nú hefur hún fengið hælisbeiðni sína samþykkta og nýtur því aukinnar verndar pólskra yfirvalda. Aftenposten hefur eftir henni að hún búi nú á leynilegum stað nærri Varsjá og fái lögregluvernd. Eldri dóttir hennar, sem er 13 ára, býr í Noregi hjá fyrrum unnusta Silje.
Silje fagnaði því að hafa fengið hæli í Póllandi og á Twitter skrifaði hún meðal annars:
„Réttlætið hefur loksins sigrað.“
Þessi sigur hennar þýðir að nú má hún fá sér vinnu í Póllandi. Aftenposten hefur eftir henni að hún hafi fengið nokkur atvinnutilboð og hlakki til að fara út á vinnumarkaðinn.
Kaþólsku samtökin Ordo Iuris hafa lagt mikið af mörkum til að aðstoða Silje í baráttu hennar fyrir hæli. Formaður samtakanna, Jerzy Kwasniewski, fagnaði ákvörðun pólskra yfirvalda. Í samtali við Aftenposten sagði hann að Silje hafi ekki fengið pólitískt hæli. Hún fái hæli og njóti verndar pólskra yfirvalda þar til staða mála hafi skýrst í Noregi. Hún njóti verndar gegn aðgerðum norskra barnaverndaryfirvalda og þessi vernd gildi svo lengi sem þörf þykir á.
Norsk barnaverndaryfirvöld hafa lengi setið undir ásökunum um að ganga harkalega fram og taka börn frá foreldrum sínum án þess að aðrar leiðir séu fullreyndar. Sex málum er varða norskar barnaverndarnefndir hefur verið skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að sögn The Times.