Móðir í Indiana í Bandaríkjunum, Mary York, hringdi á lögreglu síðastliðinn fimmtudag. Ástæðan var sú að sonur hennar hafði skömmu áður tjáð henni að hann ætlaði í skólann, vopnaður skotvopni, sem hann og gerði.
Pilturinn sem um ræðir, hinn fjórtán ára Brandon Clegg, var lagður í einelti í skólanum og hafði hann fengið nóg. Þegar hann sagði móður sinni frá áætlun sinni hringdi hún í lögreglu sem mætti á vettvang. Lögreglumenn skiptust á skotum við Brandon áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér. Brandon var úrskurðaður látinn skömmu síðar.
Aðstandendur Dennis segja að sú staðreynd að hann hafi verið lagður í einelti réttlæti ekki eitt eða neitt, en útskýri þó vanlíðan hans.
„Það er skelfilegt að hugsa til þess að ungur drengur hafi talið þann eina kost í stöðunni að sýna reiði sína með skotárás. Það er ömurlegt,“ segir frændi hans, Thomas York, í samtali við fjölmiðla.
Athyglin undanfarna daga hefur beinst að móður Brandons sem stóð frammi fyrir skelfilegri ákvörðun. Henni hefur verið hrósað fyrir hárrétt viðbrögð og fengið gríðarlega samúð. Er talið fullvíst að hún hafi bjargað mörgum mannslífum þennan örlagaríka dag þó hún hafi misst þá manneskju sem stóð henni einna næst.