Enginn hafði áður heyrt eða séð þetta mjög svo greinda vélmenni og ástæðan fyrir því er góð. Vélmennið, sem var nefnt Boris, er ekki vélmenni. Hér var einfaldlega um mann að ræða sem klæddist vélmennabúningi. BBC skýrir frá þessu auk nokkurra annarra erlendra fjölmiðla.
Það voru bloggarar á rússnesku heimasíðunni Tjournal sem voru árvökulir og uppgötvuðu þetta. Þeir tóku eftir að engir skynjarar voru á vélmenninu, hreyfingar þess þóttu þeim full mannlegar auk annarra misbresta. Þeir komu því upp um sannleikann.
Síðan fóru myndir að birtast á samfélagsmiðlum þar sem mannsháls sást á milli höfuðs og líkama vélmennisins. Síðan var mynd dreift sem sýndi mann í búningnum en án höfuðfatsins.
Fyrirtækið Show Robots bar síðan kennsl á vélmennabúninginn sem er hægt að kaupa fyrir sem svarar til rúmlega 400.000 íslenskra króna.