Norska ríkisútvarpið hefur eftir Bo Lundqvist, talsmanni lögreglunnar, að staðan í þessum málaflokki sé mikið áhyggjuefni um allt land. Ný mál komi í sífellu inn og því hafi ekki verið tími til að vinna í eldri málum. Hann stýrir þeim hópi lögreglunnar í suðurhluta Svíþjóðar sem rannsakar gömul óupplýst morðmál.
Til samanburðar má nefna að í Noregi eru 31 óleyst morðmál á borði sérstaks rannsóknarhóps sem rannsakar gömul óupplýst morðmál. Í Svíþjóð eru rúmlega 500 slík mál til rannsóknar og fer sífellt fjölgandi því lægra hlutfall morða er upplýst en áður.
Frá tíunda áratug síðustu aldar voru um 80 prósent allra morðmála í Svíþjóð upplýst en á síðustu árum hefur sigið á ógæfuhliðina hvað þetta varðar. 2015-2016 voru 56 myrtir í átökum glæpagengja og náði lögreglan aðeins að leysa fimmtung þeirra mála.
Um tvær milljónir manna búa á því svæði sem lögreglan í suðurhluta Svíþjóðar sinnir en flest morðanna hafa átt sér stað í Malmö, Karlskrona og Helsingborg. Í heildina hafa 42 verið skotnir til bana í Svíþjóð á árinu og 129 særðir. 13 hinna látnu voru skotnir til bana í Malmö. Í heildina hefur lögreglan fengið tilkynningar um 272 skotárásir það sem af er ári.