Pearson bjargaðist úr eldhafinu en lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi í fjóra mánuði. Þegar hún vaknaði upp fékk hún þær hryllilegu fréttir að fjögur börn hennar hefðu látist í eldsvoðanum. Pearson, sem er 35 ára, liggur enn á sjúkrahúsi og hefur forðast kastljós fjölmiðla. Fjölskylda hennar birti í vikunni myndbandsupptöku af Pearson til að minnast þess að ár er liðið frá þessum hörmulega eldsvoða. Á upptökunni þakkar Pearson slökkviliðsmönnum og samfélaginu fyrir. Upptakan var spiluð við heimili fjölskylunndar en þar söfnuðust rúmlega 100 manns saman til að minnast barnanna.
„Fyrst af öllu vil ég þakka öllum slökkviliðsmönnunum fyrir störf sín. Í öðru lagi vil ég þakka samfélaginu fyrir örlæti og rausnarleg fjárframlög. Í þriðja lagi vil ég þakka öllum fyrir að koma hingað í kvöld.“
Viðstaddir hlýddu á orð Pearson og kveiktu á kertum og minntust barnanna.
Zak Bolland, 23, kveikti í húsinu því hann taldi sig eiga einhverjar óuppgerðar sakir við Kyle Pearson, 17 ára son Michelle Pearson. Hann naut aðstoðar David Worrall, 25 ára, við ódæðið. Þeir hentu tveimur bensínsprengjum inn í húsið eftir að hafa brotið glugga í eldhúsinu. Seinni sprengjan sprakk við stigann og lokaði þar með fyrir einu útgönguleiðina af efri hæðinni. Kyle tókst þó að sleppa úr brennandi húsinu ásamt vini sínum.
Bolland var dæmdur í lífstíðarfangelsi og Worrall í 37 ára fangelsi hið minnsta fyrir ódæðið. Courtney Brierley, sem var í vitorði með þeim, var dæmd í 21 árs fangelsi hið minnsta.