Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar Sipri. Í henni kemur fram að tíu rússneskir vopnaframleiðendur voru á meðal þeirra 100 stærstu á síðasta ári. Þeir seldu vopn fyrir rúmlega 37 milljarða dollara. Rússnesk fyrirtæki voru því á bak við 9,5 prósent af allri vopnasölu á heimsvísu.
Mikil aukning hefur orðið í sölu rússneskra vopna frá 2011 en aukningin helst í hendur með stefnu rússnesku ríkisstjórnarinnar um að setja meira fé í nútímavæðingu heraflans.
Sipri segir að 100 stærstu vopnaframleiðendur heims hafi selt vopn fyrir tæpega 400 milljarða dollara á síðasta ári. Það er 2,5 prósenta aukning frá árinu áður. Frá 2002 hefur vopnasala á heimsvísu aukist um 44 prósent.
Bandaríkin eru stærsta framleiðsluland vopna en bandarísk fyrirtæki seldu 57 prósent af öllum vopnum sem seld voru á síðasta ári. Stærsti vopnaframleiðandi heims er bandaríska fyrirtækið Lockheed Martin sem selur aðallega ýmsan búnað tengdan flugi, má þar nefna orustuþotur, gervihnetti, eldflaugar og stýriflaugar. Sala fyrirtækisins á síðasta ári nam 45 milljörðum dollara sem er meira en samanlögð sala 10 stærstu rússnesku fyrirtækjanna.
Það skekkir þó þessar tölur að Kína er ekki með í tölunum en engar upplýsingar fást um vopnaframleiðslu og vopnasölu kínverskra fyrirtækja en hún er mikil.