Danski vísindamaðurinn Martin Kristensen hefur birt niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem hann gerði ásamt vísindamönnum við Cornell háskóla, um flugleiðina. Ef kenning þeirra er rétt er ljóst að leitin að vélinni hefur til þessa farið fram á kolröngum stöðum.
Vísindamennirnir reiknuðu flugleið vélarinnar út með mjög flóknu stærðfræðilíkani og fá út allt aðra niðurstöðu en unnið hefur verið út frá. Upprunalega kenningin var að vélinni hafi verið beygt í austur en vísindamennirnir telja hins vegar að vélinni hafi verið flogið beint áfram og hafi hrapað í sjóinn nærri Jólaeyju í Indlandshafi.
Útreikningarnir eru byggðir á merkjum sem Inmarsat 3F1 gervihnötturinn nam þegar vélin hvarf. Fram til þessa hafa vísindamenn, á grunni þessara merkja, vitað að flugvélin var á flugi en hafa ekki getað staðsett hana. En með reiknilíkaninu hafa vísindamennirnir komist að þeirri niðurstöðu að fjórar leiðir komi til greina sem leið vélarinnar. Tvær þeirra er þó hægt að útiloka að þeirra mati þar sem þær liggja yfir Kína og Indland og ef vélin hefði flogið þær hefði hún komið fram á ratsjám.
Vísindamennirnir leggja því til að leit verði hafin að vélinni á nýjan leik á 3.500 ferkílómetra svæði nærri Jólaeyju. Þeir eru þess fullvissir að þar séu 90 prósent líkur á að finna vélina.