Danski þjóðarflokkurinn er andsnúin flóttamönnum og hælisleitendum og fékk þessu framgengt gegn því að styðja fjárlögin. Á eyjunni á að vista þá hælisleitendur og flóttamenn sem hafa fengið höfnun á umsókn um hæli eða landsvist en ekki er hægt að senda úr landi. Það getur verið vegna þess að dauðarefsingum er beitt í heimalöndum þeirra eða þá að þeir eiga á hættu að sæta pyntingum ef þeir snúa heim. Í Danmörku er talað um þennan hóp sem hælisleitendur og flóttamenn sem fólk sem verður að afbera að hafa í landinu.
Eins og fyrr sagði hafa sumir fengið höfnun á umsóknum um hæli eða landvistarleyfi en aðrir hafa verið sviptir landvistarleyfi vegna afbrota sinna, þeir eru taldir ógna öryggi ríkisins eða þá að þeir hafa tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi utan Danmerkur.
Núna býr þetta fólk hér og þar og er undir litlu sem engu eftirliti. Í Kærshovedgård á Jótlandi er starfrækt miðstöð þar sem þetta fólk á að dvelja og vera undir eftirliti en mikill misbrestur er á því og margir sjást aldrei þar. Þá eru íbúar í nágrenninu mjög ósáttir við þetta fyrirkomulag sem þeir segja að hafa haft í för með sér mikla aukningu afbrota á svæðinu, innbrot og ofbeldisbrot eru þar nefnd til sögunnar, og segjast margir ekki þora að leyfa börnum sínum að vera einum úti við.