Danska ríkisútvarpið (DR) skýrir frá þessu. Dönsk stjórnvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið en DR hefur heimildir fyrir þessu innan stjórnkerfisins. Viðræðurnar eru sagðar vera á viðkvæmu stigi. Gert er ráð fyrir útgjöldum vegna þessa í fjárlögum næsta árs. Þar kemur fram að stefnt sé að því að ná samningum við erlent ríki um að taka við föngum, sem hafa verið dæmdir til brottvísunar frá Danmörku að afplánun lokinni, fyrir árslok 2019. Þannig sé hægt að koma í veg fyrir að þessir fangar valdi meira álagi á danska fangelsiskerfið og danskt samfélag.
DR segir að nokkur önnur ríki taki þátt í viðræðunum við Litháa um þetta. Í fangelsinu á að vista litháenska ríkisborgara, sem hafa hlotið dóma í öðrum Evrópuríkjum, og ríkisborgara annarra ríkja. Þessum tveimur hópum verður þó haldið aðskildum.
Preben Bang Henriksen, talsmaður ríkisstjórnarflokks Venstre í málum réttarvörslukerfisins, sagði í samtali við DR að markmiðið með þessu væri að senda sterk skilaboð til útlendra afbrotamanna um að þeir geti lent í fangelsi utan Danmerkur fyrir afbrot framin í Danmörku. Þeir vilji örugglega helst afplána í dönsku fangelsi en nægt álag sé á þau fyrir.