Í nýrri skýrslu frá samtökunum Læknar án landamæra kemur fram að um 30 prósent, þeirra sem eru í flóttamannabúðunum, hafa reynt að taka eigið líf og 60 prósent hafa hugleitt það. Þetta á við um börn niður í 9 ára aldur. Niðurstöðurnar eru byggðar á gögnum frá þessu ári og því síðasta. Samtökin segja að sú andlega heilsufarskrísa sem ríkir á Nauru sé sú versta sem samtökin hafa séð.
Ástralir hafa sent flóttamenn, sem koma sjóleiðis til Ástralíu, til Nauru frá 2013. Þar eru nú um 900 flóttamenn, þar af 115 börn, sem hafa verið þar í fimm ár og eygja enga von um að losna þaðan á nýjan leik.
Í skýrslunni kemur einnig fram að 62 prósent flóttamannanna hafa greinst með þunglyndi, 25 prósent með kvíða og 18 prósent þjást af áfallastreituröskun.