„Aldrei fyrr hefur verið sýnt fram á þetta vísindalega.“ Hefur The Globe and Mail eftir Doug Clark, sem vann að rannsókninni, um niðurstöðurnar.
Frá 2011 til 2017 náðust myndir af 401 birni á myndavélarnar. Ísbirnir voru þar fyrirferðarmestir en 25 svartbirnir og 10 grábirnir náðust einnig á mynd. Það er einmitt þetta að þessar þrjár bjarnartegundir haldi til á sama svæðinu sem eru stórtíðindi að mati vísindamanna. Vísindamenn hafa lengi fylgst með þessu svæði en það var ekki fyrr en rannsóknir Clark hófust að í ljós kom að þessar þrjár bjarnartegundir halda þar til.
Clark segir að augljóst sé að miklar breytingar séu að eiga sér stað á þessum slóðum. Lengi hefur verið vitað að svartbirnir og ísbirnir væru í Wapusk þjóðgarðinu, svartbirnirnir hafa haldið sig í skógunum en ísbirnirnir úti við ströndina. Það er hins vegar alveg nýtilkomið að grábirnir séu á svæðinu og hvað þá að allar þrjár tegundirnar fari um sömu svæðin. Clark telur að loftslagsbreytingarnar hafi valdið því að grábirnirnir hafi leitað inn í þjóðgarðinn því hlýrra loftslag hafi í för með sér að nýjar plöntutegundir vaxi á svæðinu.
Hlýnunin hefur í för með sér að ísinn við ströndina bráðnar fyrr en áður og því leita ísbirnirnir inn í skóginn þar sem þeir rekast á hinar bjarnartegundirnar. Þetta eykur líkurnar á að þessar ólíku bjarnartegundir eignist afkvæmi saman sem til langs tíma, mjög langs tíma, getur leitt til að ný tegund verði til.